Fyrsta tölublað Veru, tímariti Kvennaframboðsins í Reykjavík, leit dagsins ljós í október 1982. Í leiðara segir meðal annars að hlutverk þess sé „að koma á framfæri sjónarmiðum kvenna“ og blaðið „væri liður í baráttu íslenskra kvenna fyrir bættum kjörum og auknum áhrifum.“ Vinnan við tímaritið var framan af sjálfboðavinna enda ekkert fjármagn fyrir hendi. Ritstjórn skipuðu 8-10 konur. Þær skrifuðu blaðið, settu það upp, tóku ljósmyndir, sáu um prófarkalestur, fóru með blaðið í prentun og jafnvel pökkuðu í plast. Fyrstu 10 árin var enginn sérstakur ritstjóri. Óhætt er að segja að Magdalena Schram hafi átti stærstan þátt í að Vera varð að veruleika og stóran þátt í velgengni tímaritsins fyrstu árin.
Árið 1984 gerðu Kvennalisti og Kvennaframboð í Reykjavík með sér helmingafélag um útgáfu Veru og breyttist þá titillinn úr Vera–blað Kvennaframboðsins í Reykjavík í Vera–málgagn kvenfrelsisbaráttu. Stefnan varð sú að ritið væri málgagn kvenfrelsisbaráttu eins og hún birtist í hugmyndafræðigrundvelli og stefnuskrám Kvennalista og Kvennaframboðs. Gert var ráð fyrir sérstökum þingmálasíðum auk borgarmálasíðna. Með því að ganga til samstarfs við Kvennalista vænkaðist fjárhagurinn því Kvennalistinn fékk árlegan útgáfustyrk frá Alþingi.
Árið 1989 breyttist titillinn í Vera, tímarit um konur og kvenfrelsi. Útgefendur voru áfram Kvennaframboð og Kvennalisti fram til ársins 1991, er Kvennalisti verður eini útgefandinn. Aldamótaárið var stofnað einkahlutafélagið Verurnar, um rekstur Veru, sem nokkrar áhugasamar konur stóðu að. Verurnar ehf gáfu ritið út þar til Vera lagðist af árið 2005. Alls urðu árgangarnir 24 og árlega komu út um 6 tölublöð.
Síðasta breyting á texta 23. júlí 2019