Kvennalistalistagrillið 2020

Kjarnakonur í Vesturlandsanga skipulögðu Kvennalistagrillið þetta árið. Það var haldið í Langaholti sem er á óviðjafnanlegum stað á sunnanverðu Snæfellsnesi. Langaholt er í rekstri og umsjá afkomenda Svövu Svandísar, Kvennalistakonu.

Dagskráin hófst 19. júní kl. 17:00. Eftir gleðistund var framreiddur dásamlegur kvöldverður. Þorkell sonur Svövu Svandísar og starfsfólk hans buðu upp á gómsætan mat alla helgina.

Eins og jafnan var söngur, glens og gaman undir borðum.

Á laugardeginum sagði Sóldís Fannberg frá ritgerð sinni um Rauðsokkur og Kvennalistann sem hún skrifaði við Menntaskólann á Laugarvatni og Kristín Ástgeirsdóttir flutti fróðlegt erindi um stöðuna nú og hvað taki við.

Á sunnudeginum var keyrt um Snæfellsnes. Fyrsti áfangastaður var Krambúðin á Búðum. Þar fannst dýrmæt gestabók sem Sigríður Halldórsdóttir, Sigga á Búðum, hafði varðveitt frá 1983 þegar Kvennaframboðskonur voru með ráðstefnuna Kvenna-búðir.

Farið var um Arnarstapa að Malarrifi og sumar enduðu í Lýsuhólslaug. Þetta var fyrsti opnunardagur laugarinnar eftir Covid-19. Konur fylgdu fyrirmælum Svövu Svandísar um að ekki megi skola af sér ölkelduvatnið í lauginni, því fylgi mögnuð álög.

Allar voru sammála um að ferðin í Langaholt hafi verið dásamleg, fróðleg, skemmtileg og vel skipulögð. Hún verður lengi í minnum höfð.

previous arrowprevious arrow
next arrownext arrow

Slider