Hugmyndafræðigrundvöllur Kvennaframboðs samþykktur 1982

Strax í upphafi var lögð mikil áhersla á að hreyfingin byggði á sterkum hugmyndafræðilegum grundvelli sem konur gætu verið sammála um. Konur, í Sumarhópi Kvennaframboðs, sem höfðu verið í Rauðsokkahreyfingunni voru hugmyndafræðilega hallar undir marxískan femínisma. Fljótlega kom í ljós vilji fyrir breyttum áherslum og nýjum leiðum.

Í hópnum voru konur sem höfðu kynnst kenningu um menningarfemínisma sem grundvallast á því að konur eigi sérstakan sameiginlegan reynsluheim á grundvelli kynferðis og hann sé sameiginlegur öllum konum. Hann ráðist af uppeldi, rótgrónum hlutverkum og vinnu kvenna á heimilinu og helgist af því að konur ali af sér börnin, fæði þau, klæði og sjái um umönnunarstörfin á heimilum. Þessi menning eigi sér aldagamlar rætur, arfur sem borist hefur frá kynslóð til kynslóðar og hafi mótað sjálfsmynd kvenna.

Þessar hugmyndir kveiktu í konum meðal annars vegna þess að kvennamenningarnálgunin var andstæð þeirri píslarvættismynd sem oft var dregin upp af konum og stöðu þeirra. Með því að vekja athygli á reynslu kvenna og hinu jákvæða í lífi þeirra var verið að styrkja sjálfsmyndina og undirstrika mikilvægi framlags kvenna til samfélagsins. Hugtökin „kvennamenning“ eða „reynsluheimur kvenna“ ruddu farveg fyrir sjónarmið umhyggju og fjölskylduábyrgðar inn í stjórnmálin.

Kvennamenning gerði ráð fyrir að konur samsömuðu sig með öðrum konum óháð stétt og uppruna. Andstætt marxískum femínisma sem grundvallaðist á slagorðunum: „Engin stéttabarátta án kvennabaráttu. Engin kvennabarátta án stéttabaráttu.“

Sú niðurstaða Sumarhópsins að hafna marxisma og móta hugmyndafræði sem byggir á menningarfemínisma varð til þess að félagar í Fylkingunni og Alþýðubandalaginu, innan Sumarhópsins snéru aftur til flokka sinna og höfnuðu framboði kvenna.

Langlífi framboðanna má tvímælalaust skýra með mikilli umræðu um hugmyndafræðigrundvöllinn sem síðan stefna í einstökum málaflokkum byggði á.

(Texti Kristín Jónsdóttir byggður á bók hennar: „Hlustaðu á þína innri rödd.“ Kvennaframboð í Reykjavík og  Kvennalisti 1982-1987.)

 

Skjöl (PDF)