Ljósmóðir Kvennalistans

Helga var frumkvöðull og ljósmóðir kvennabaráttunnar á Íslandi í margvíslegum skilningi þó að þetta hlutverk hennar væri ekki alltaf augljóst. Hún var kvenleg og einstaklega hógvær og prúð kona, en glaðvær og hlýleg með velviljaða og fágaða kímnigáfu. Hún var mikill friðarsinni og allt hennar viðmót bar þess merki. Hún sýndi öllu og öllum virðingu og tillitssemi. Hins vegar var hún mjög ákveðin og fylgdi sínum málum fast eftir með ljúfmennsku en óbilandi festu. Hún hafði líka lag á því að fá fólk á sitt band, reyndi að virkja aðra þannig að þeim fannst þeir hefðu sjálfir komist að niðurstöðunni, átt hugmyndina. Mann langaði að gera það sem hún bað um því hún var svo væn. Helga var virkur þátttakandi í Kvennaframboðinu og einlæg baráttukona. Hún lék úrslitahlutverk við myndun Kvennalistans. Þegar viðkvæm og brothætt umræða innan Kvennaframboðs var sigld í strand, eftir að atkvæði höfðu fallið þannig að framboði til Alþingis var hafnað, kallaði Helga konur sem voru hlynntar framboði heim til sín, nærði hópinn og hvatti konur til að gefast ekki upp heldur reyna til þrautar að bjóða fram til Alþingis. Þannig stappaði hún stálinu í konur og fékk þær til að halda áfram að leita leiða til að bjóða fram til Alþingis. Ef Helga hefði ekki tekið þetta frumkvæði hefði Kvennalisti aldrei boðið fram til þings. Þannig má segja með réttu að hún sé ljósmóðir Kvennalista.

Guðrún Agnarsdóttir

0