Þegar við fórum uppstrílaðar eins og fegurðardrottningar á borgarstjórnarfundinn var ég íklædd sundbol. Ástæðan var sú að ég hafði ekki komist á undirbúningsfundinn þar sem deilt var út síðkjólum. Ég átti sjálf ekkert sem nálgaðist að geta kallast síðkjóll. Nú þá var sundbolur eina úrræðið – þetta var reyndar ekki hefðbundinn fegurðardrottningarsundbolur heldur svartur Speedo sundbolur sem ég notaði við mínar reglulegu sundferðir.
Þegar við komum upp í Skúlatún þar sem borgarstjórnarfundirnir voru haldnir var ég með þeim öftustu í röðinni. Þarna voru fyrir örfáir blaðamenn sem trúlega höfðu það verkefni að skrifa um borgarmál – þeir höfðu aðstöðu í grennd við áhorfendabekkina. Þar var einnig sími (þetta var fyrir tíma farsímanna) sem blaðamennirnir höfðu aðgang að. Þegar við vorum að tínast inn bekkina, ég var með þeim öftustu, verð ég vitni að því að ungur blaðamaður stendur og talar í símann og segir: „Hér er allt að verða vitlaust – hérna er fullt af konum klæddar eins og fegurðardrottningar – ein er á sundbol og hún er meira að segja svoldið feit.“
Mynd af mér á sundbolnum á áhorfendapöllunum hef ég rekist á í fleiri en einni erlendri bók um kvennabaráttu – þrátt fyrir hinar mjúku línur.
Hjördís Hjartardóttir
FEB
2017