Hinn 14. nóvember 2017 voru 36 ár liðin frá fundi um hugsanlegt Kvennaframboð

Sumarið 1981 funduðu 50-70 konur reglulega um þá hugmynd að stofna Kvennaframboð vegna óásættanlegrar stöðu kvenna. Launamunur kynjanna var mikill og lítil áhersla á velferðarmál. Leik- og grunnskólakerfið miðaðist við að konur væru heimavinnandi húsmæður, skóladagur stuttur og sundurslitinn, skólar tví- og þrísetnir og engar skólamáltíðir. Konur voru lítt sýnilegar í stjórnmálum. Þær voru 6% kjörinna fulltrúa í sveitastjórnum, þrjár konur sátu á Alþingi og engin kona í ríkisstjórn. Valdaleysi kvenna var algjört.

Innan hópsins kom fljótlega í ljós hugmyndafræðilegur ágreiningur. Annars vegar milli kvennamenningarfemínista sem höfnuðu marxískri stéttaskilgreiningu á þeim forsendum að hún félli ekki að veruleika kvenna og hins vegar marxískra eða sósíalískra femínista sem töldu að undirokun kvenna væri afleiðing af stéttakúgun. Margar hættu vegna þessa ágreinings og sumar voru ekki reiðubúnar bjóða fram sérstakan kvennalista þegar á reyndi. Undir haustið sátu eftir 12 konur sem aðhylltust kvennamenningu eða menningarfemínisma.

Þær boðuðu til blaðamannafundar til að kynna borgarafund, á Hótel Borg hinn 14. nóvember, til að kanna hug fólks til hugsanlegs kvennaframboðs í sveitarstjórnarkosningunum 1982. Blaðamannafundinn sátu Helga Kress, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Hjördís Hjartardóttir og Helga Ólafsdóttir. Auk þeirra voru í undirbúningshópnum þær Erna Indriðadóttir, Guðfinna H. Friðriksdóttir, Helga Sigurjónsdóttir, Hildur Sveinsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.

Fundurinn var lítið auglýstur enda ekkert fjármagn til fyrir slíku. Konurnar höfðu fundið fyrir miklum áhuga fyrir framboði en þeim til mikillar undrunar mættu yfir sex hundruð manns, aðallega konur, og urðu margir frá að hverfa.
Feikileg stemmning var í salnum orka og kraftur sem kveikti í konum. Yfirgnæfandi meirihluti fundargesta lýsti sig fylgjandi sérstöku framboði kvenna og samþykkt var að bjóða fram að vori.

Í fjölmiðlum var lítið fjallað um fundinn og engar myndir til, svo vitað sé, þar sem verkfall prentara stóð yfir.

Næstu vikur og mánuðir á eftir fóru í að móta hugmyndafræði og stefnu, stilla upp á lista, undirbúa kosningafundi, þar á meðal mikla kosningahátíð sem haldin var í Laugardalshöll. Enginn flokkur hefur slegið það met sem þá var sett í aðsókn á kosningahátíð fyrir kosningar.

0