Ert þú orðinn þreyttur á okkur konunum? Við sem erum rétt að byrja að tala

Við vorum búnar að leggja mikla vinnu í kosningaundirbúninginn og útgáfu kosningablaðs. Nú var það tilbúið og við héldum glaðar og kátar út á götur og torg til að dreifa fagnaðarerindinu. Ég ásamt annarri konu vorum mættar til að dreifa blaðinu. Við tókum okkur stöðu á móti Hlemmi, enda var þar margt fólk á ferli. Ég rétti blaðið að öllum sem gengu framhjá, stolt og ánægð með okkar flotta kosningablað, heitt úr prentsmiðjunni.

Á móti mér kemur maður á miðjum aldri. Þegar hann mætir mér þá víkur hann sér undan, vill ekki blaðið og segir: „Ég er nú orðinn svo þreyttur á þessu kerlingakjaftæði.“ Við þessi orð snöggreiddist ég, hækkaði róminn, hálfhljóp á eftir honum og hrópaði: „Ert þú orðinn þreyttur á okkur konunum, við sem erum rétt að byrja að tala.“ Hann fór yfir götuna en ég elti hann og lét hann sko heyra það. Ég kallaði á eftir honum: „Ef þú ert orðinn þreyttur á okkur hvað megum við þá segja ? Við erum búnar að hlusta á ykkur karlana í gegnum aldirnar. Við erum rétt að byrja.“ Maðurinn lét sig hverfa og ég kom mér aftur á minn stað, hélt áfram að dreifa blaðinu og reyndi að hisja upp um mig brosið. Ja – hann kaus okkur væntanlega ekki þessi!

Minning Helgu Thorberg

0