Guðrún Ögmundsdóttir

Guðrún Ögmundsdóttir hefur kvatt þennan heim og gengið á vit ljóssins. Hún var einstök manneskja,  ótrúlega læs á fólk og hafði einstætt innsæi á mannlegt eðli. Alltaf reiðubúin að styðja og styrkja og örlát á ráð og reynslu.  Guðrún var hrókur alls fagnaðar hvar sem hún kom og snillingur í að skapa góða stemmningu.

Kvennalistinn var svo lánsamur að fá að njóta krafta hennar. Gunna Ö. var öflugur liðsmaður og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum  Hún var varaborgarfulltrúi í borgarstjórn fyrir Kvennalistann 1988-1992 og borgarfulltrúi 1992-1994 en það ár var hún kosin borgarfulltrúi fyrir R-listann og sat sem slík til ársins 1998. Á myndinni er Guðrún að taka við af Elínu G. Ólafsdóttur borgarfulltrúa árið 1992, í anda útskiptareglu Kvennalistans. Margar okkar höfðu áður kynnst henni við störf í Rauðsokkahreyfingunni. Hún var þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík 1999-2007.

Ótalmargar fallegar minningargreinar hafa verið skrifaðar um Guðrúnu Ögmundsdóttur. Eftirfarandi eru minningargreinar eftir nokkrar vinkonur hennar úr Kvennalistanum.

„Um árabil hefur hópur Kvennalistakvenna hist í hádeginu á Jómfrúnni á föstudögum til að taka stöðuna í kvennabaráttunni, ræða fréttir vikunnar og styðja og styrkja hver aðra. Baráttukonan Gunna Ö. var ein okkar. Hún sýndi oft mikil tilþrif í hópnum, hafði sterkar skoðanir, var vel inni í málum, kímnigáfan ríkuleg og hún kvað niður alla neikvæðni. Henni fylgdi alltaf ferskur blær þegar hún kom inn úr dyrunum. Hún þurfti tíma til að komast að borðinu okkar, því hún þekkti svo marga sem hún kyssti og knúsaði á leið sinni. Gunna fékk sér jafnan appelsín og purusteik meðan við hinar létum okkur nægja vatn og hálfa „smørrebrød“.

Danmörk átti sterk ítök í Gunnu. Þar stundaði hún nám, þar kynntist hún Gísla og þar tók hún þátt í starfi íslensku kvennahópanna. Kim Larsen, Anne Linnet og félagarnir Benny Andersen og Povl Dissing voru í uppáhaldi. Kim Larsen orti: Livet er langt, lykken er kort“ en því var öfugt farið hjá Gunnu, líf hennar varð of stutt en gæfan mikil.

Eftir að hún kom heim frá námi gekk hún til liðs við Kvennalistann en þar voru fyrir baráttusystur úr Rauðsokkahreyfingunni. Hún hellti sér í starfið, varð varamaður í borgarstjórn fyrir Kvennalistann og síðan borgarfulltrúi 1992-1998.

Gunna átti langan pólitískan feril í borgarstjórn og á Alþingi en eftir að honum lauk tók við afar erfitt verkefni. Það var ekki heiglum hent að fást við úttekt á vistheimilum ríkisins þar sem níðst var á börnum svo ævarandi skömm er að. Gunna stýrði þessu starfi og við erum til vitnis um að oft gekk hún nærri sér og mætti stundum á Jómfrúna gjörsamlega að niðurlotum komin eftir að hafa hlustað á hræðilegar reynslusögur fólks.

Gunna bjó yfir æðruleysi og hugrekki sem lýsti sér m.a. í því að henni tókst að ljúka þessu erfiða verkefni en ekki síður í því hvernig hún tókst á við veikindin sem lögðu hana að velli á síðasta degi ársins 2019. Æðruleysi hennar birtist m.a. í heimspekilegum vangaveltum um lífið og tilveruna. Hún hvatti okkur til að meta og njóta lífsins, gefa hamingjunni tækifæri og láta ekki sektarkennd taka völdin. Á síðustu mánuðum lífs síns miðlaði Gunna góðum ráðum til sinna fjölmörgu vina, hún vildi fá að deyja fallega og senda frá sér jákvæða strauma. Fáa þekkjum við sem áttu þvílíkan vinahóp, hún leit á alla sem jafningja, óháð kyni, stétt og stöðu.

Gunna nýtti margþætta lífsreynslu sína til þess að láta gott af sér leiða og tengja fólk saman. Næmi hennar á líðan annarra var mikið og það nýttist henni vel í starfi sem félagsráðgjafi á Landspítalanum, sem borgarfulltrúi þar sem barnaverndarmál voru henni hugleikin og á þingi þar sem mannréttindi samkynhneigðra voru hennar hjartans mál.

Að leiðarlokum þökkum við Gunnu áratuga samstarf og dýrmæta vináttu. Baráttan heldur áfram, fyrir kvenfrelsi, mannréttindum, jöfnuði og réttlæti. Megi fordæmi Gunnu Ö. vera okkur leiðarljós og áminning um að halda ótrauðar áfram. Við sendum Gísla, Ögmundi, Ingibjörgu og öðrum ættingjum og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minning Gunnu Ö. mun lifa.“

Danfríður Skarphéðinsdóttir,
Guðrún Agnarsdóttir,
Kristín A. Árnadóttir,
Kristín Ástgeirsdóttir,
Kristín Einarsdóttir,
Kristín Jónsdóttir,
Sigríður Lillý Baldursdóttir,
Þórhildur Þorleifsdóttir.

Eftirfarandi minningargrein er eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur

„Það var 15. maí árið 1976. Keflavíkurgangan liðaðist niður Kópavogshálsinn og það var þá sem ég sá hana; ljóshærðu, smávöxnu stelpuna sem arkaði áfram haldandi á spjaldi með slagorði gegn her í landi. Hún hafði útgeislun á við heilt orkuver og ég ákvað að þessari stelpu ætlaði ég að kynnast. Ég lenti í partíi hjá henni um kvöldið og nokkrum dögum seinna boðaði ég komu mína í heimsókn til hennar sem átti eftir að marka upphafið að órjúfandi vináttu okkar. Við áttum margar yndisstundir á Óðinsgötunni, fyrst tvær einar og svo með Ögmundi eftir að hann fæddist. Gunna var miklu lífsreyndari en ég, kom úr flókinni teygjufjölskyldu þar sem ég átti fullt í fangi með að henda reiður á hvernig öll hennar systkini tengdust henni því þau tengdust ekki endilega innbyrðis. Þá þegar þekkti hún hálfan bæinn og átti vini í ólíklegustu hópum. Svo vann hún fyrir sér og átti bæði íbúð og bíl sem var ekki algengt á þeim tíma. Samt var hún einstæð móðir sem átti fáa að. Við störfuðum saman í Rauðsokkahreyfingunni, sungum í kór hreyfingarinnar og skipulögðum fundi, uppákomur og kappræður. Haustið 1979 ákváðum við svo að flytja til Kaupmannahafnar, Gunna til náms í félagsráðgjöf og ég í sagnfræði. Þar hófum við búskap saman á Amager fjórar stelpur en fljótlega bættust tveir strákar í hópinn og var annar þeirra Gísli Arnór Víkingsson. Gísli var bæði ljúfur og fallegur með sínar dökku krullur og það var fljótlega ljóst að Gunna hafði einsett sér að leggja snörur sínar fyrir þennan strák. Það gerði hún svo með bravúr á balli hjá Námsmannafélaginu á afmælisdaginn sinn 19. október 1979. Ég var heima og passaði Ögmund og það var því vel við hæfi, og mér mjög mikils virði, að þau héldu upp á 40 ára samfylgd sína hjá mér í Varsjá þann 19. október sl. Með Gilla kom ákveðin kjölfesta inn í líf Gunnu og hans stóra og samheldna fjölskylda var henni mjög mikils virði. Þetta var fjölskyldan sem hún hafði alltaf þráð en aldrei átt.

Eftir að heim var komið störfuðum við saman í Kvennalistanum, síðan í Reykjavíkurlistanum og loks í Samfylkingunni. Stuðningur Gunnu var ómetanlegur og það var einstakt að hafa hana með í borgarstjórnarflokki og þingflokki því hún gat lesið bæði einstaklinga og hópa eins og opna bók. Hún fann á sér þegar óánægja var í uppsiglingu og lagði sig fram um að skilja vandann og finna lausn. Hún var umburðarlynd og víðsýn, reyndi alltaf að setja sig í spor annarra og talaði máli þeirra sem áttu undir högg að sækja. En hún gat verið snögg upp á lagið og hafði litla þolinmæði fyrir sérgæsku og tilætlunarsemi. Hún sýndi vinum sínum mikla elsku en gat líka sagt þeim til syndanna ef henni fannst þeir eiga fyrir því. Þá átti hún til að setja sig í stellingar og tilkynna þeim „ég fer ekki ofan af því“. Mest elskaði Gunna samt fólkið sitt; Gilla, Ögmund, Ingibjörgu, Birnu og barnabörnin. „Ég er mikil gæfumanneskja með fólkið mitt“, sagði hún, og umvafði þau með kærleika. Ég ætla að gera það líka, nú þegar ég kveð Gunnu mína full þakklætis fyrir áratuga vináttu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

0