Guðrún Ólafsdóttir

Mannkostakonan Guðrún Ólafsdóttir, kvennalistakona er fallin frá. Það var styrkur og gæfa Kvennaframboðsins, þegar því var ýtt úr vör í árslok 1981, hversu breiður og fjölbreyttur hópur kvenna lagði því lið. Þarna komu saman konur á öllum aldri úr ýmsum áttum. Flestar með litla reynslu af pólitísku starfi en allar með sömu brennandi þörfina til að láta um sig muna í baráttunni fyrir bættum hag kvenna. Guðrún var einn af stofnendunum og í nóvember 1981 var hún kosin í kynningarnefnd fyrir væntanlegt framboð. Um vorið tók hún svo 10. sætið á lista Kvennaframboðs til borgarstjórnar Reykjavíkur, þá 52ja ára lektor við Háskóla Íslands. Hún sat í umhverfismálaráði borgarinnar 1982-1986, fyrstu tvö árin sem aðalfulltrúi en seinni tvö sem varafulltrúi í samræmi við útskiptareglu Kvennaframboðsins. Umhverfismálin voru hennar hjartans mál og í umhverfismálaráði fékk hún m.a. samþykkta friðun Skildinganeshólanna auk þess sem hún beitti sér fyrir verndun suðurstrandar borgarinnar. Hún hafði þungar áhyggjur af mikilli skólpmengun í fjörum borgarinnar og ein okkar minnist þess að hún sagði einhvern tímann: „Ég svaf bara ekkert í nótt, ég var að hugsa um holræsakerfið“.

Seinna meir var hún svo í starfshópi á vegum Kvennalista um umhverfismál og stóriðju. Mest var þó líklega framlag hennar til tímaritsins Veru sem gefið var út á árunum 1983-1999 en Guðrún var í ritnefnd á árunum 1985-1987 og svo aftur 1990- 1994. Þar skrifaði hún m.a. greinar um umhverfismál, um konur í þróunarlöndum, menntamál kvenna og síðast en ekki síst um kvennarannsóknir en þar lagði hún mikið af mörkum. Hún sótti ýmis kvennarannsóknarþing erlendis og miðlaði frá þeim í Veru en rauði þráðurinn í þeirri umfjöllun var sú skoðun hennar að kvennarannsóknir ættu að næra kvennapólitíkina og kvennahreyfinguna. Sjálf var hún frumkvöðull á sínu fræðasviði og kynnti femínískar rannsóknir í landafræði fyrir nemendum sínum.

Guðrún áorkaði miklu en aldrei með látum. Hún gerði allt vel, var róleg og yfirveguð og alltaf kurteis og elskuleg. Hún hefði getað verið móðir margra þeirra sem hún starfaði með í Veru og bjó bæði yfir meiri þekkingu og víðsýni en við hinar en kom samt alltaf fram við okkur sem jafningja. Þó að henni lægi lágt rómur og þyrfti að etja kappi við háværar ungar konur þá náði hún alltaf í gegn. Við hlustuðum þegar hún talaði. Hún hafði góðan húmor, var einstaklega glaðsinna og lét sig aldrei vanta í góðan gleðskap. Guðrún fylgdist vel með því sem við vorum að gera og það var alltaf gott að hitta hana á gangi í Vesturbænum og spjalla um það sem efst var á baugi í pólitíkinni.

Fyrir nokkrum árum var ljóst að hún var ekki alltaf meðvituð um stund og stað en samt jafn hlý, brosandi og elskuleg og áður. Nú hefur hún kvatt og við fáum ekki lengur notið hennar góðu nærveru. Við þökkum vináttu hennar og handleiðslu á árum áður og mikilvægt framlag til baráttu kvenna fyrir betri heimi. Börnum hennar og barnabörnum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ragnhildur Vigfúsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Jónsdóttir og Kristín Blöndal.

 

0