Langlífi Kvennalista má m.a. skýra með því að grunnurinn var vel útfærður og traustur. Hugmyndafræðin var skýr og stefna í einstökum málum byggði á henni. Einnig var mikilvægt hve margar konur komu að stefnumótuninni.
Á annað hundrað konur unnu að því að skrifa fyrstu stefnuskrá Kvennaframboðs. Haldnir voru fjöldinn allur af fundum á Hallveigarstöðum, Hótel Vík og víðar.
Helstur kröfur 1982 voru að:
- gefa öllum börnum kost á dagvistun í að minnsta kosti sex klukkustundir
 - hafa skóladag samfelldan, skóla einsetna og fækka nemendum í bekkjum
 - lengja skólatíma sex ára barna. Dvalartími barna verði ekki lengri en sex tímar á dag á stofnunum.
 - bjóða börnum upp á aðgang að skólaathvarfi og mat í skólum
 - færa valdið nær borgarbúum, auka íbúalýðræði og stofna hverfasamtök
 - auka samfélagslega ábyrgð, allir séu samábyrgir fyrir velferð einstaklinga
 - binda ekki fjármagn ákveðnum málaflokkum heldur forgangsraða málum
 - stytta og gefa foreldrum kost á sveigjanlegri vinnutíma
 - fjölga æskulýðsmiðstöðvum og og félagsmiðstöðvum
 - stofna athvarf fyrir unglinga í bráðum vanda,
 - auka áherslu á almenningsíþróttir fremur en keppnisíþróttir
 - flytja flugvöllinn úr miðborginni
 - bæta þjónustu almenningssamgangna og blanda og þétta byggð
 - auka fræðslu og áróður um mikilvægi góðs mataræðis
 - meta húsmóðurstarfið til launahækkunar
 - auðvelda konum að fara út á vinnumarkaðinn með því að veita þeim tækifæri til menntunar og starfsþjálfun sniðið að þeirra áhugamálum.
 - stofna neyðarathvarf fyrir konur.
 
Í stefnuskrá 1986 var sú nýjung að lögð var áhersla á mikilvægi þess að koma í veg fyrir andlegt og líkamlegt ofbeldi á börnum og kynferðismisnotkun á þeim. Einnig var krafa um kjarnorkuvopnalausa Reykjavík og að skip með kjarnorkuvopn innan borðs verði óheimil aðkoma að hafnarsvæði Reykjavíkur.
Í stefnuskránni 1990 er aukin áhersla á kvennamenningu og kvennapólitíska stefnu sem byggir á reynsluheimi kvenna. Auknar tekjur borgarinnar eigi að verja til að jafna kjör borgarbúa og bjóða upp á góða og ódýra þjónustu.

