Kosningabaráttan í Reykjavík 1995 var með öðru sniði en fyrri kosningabaráttur. Í fyrsta skipti var leitað til ímyndarfræðings til að skapa og hanna nýja ímynd og sérstakur hönnuður var fenginn til að hanna allar auglýsingar, dreifibréf og bæklinga.
Fram til þessa hafði áhersla verið lögð á mikla breidd listans. Nú var áherslan fyrst og fremst á þrjár efstu konurnar. Þær Kristínu Ástgeirsdóttur, Guðnýju Guðbjörnsdóttur og Þórunni Sveinbjarnardóttur. Ekki voru allar konur sáttar við þessa áherslubreytingu. Fannst hún á skjön við fyrri hugmyndir um að sýna mörg andlit, dreifa ábyrgð og láta margar raddir hljóma.
Í kosningabaráttunni var áhersla lögð á bætta stöðu kvenna á vinnumarkaði og 12 tillögur voru kynntar til úrbóta í launa- og kjaramálum.
Það hallaði verulega undan fæti fyrir Kvennalistanum í kosningunum. Kosningaúrslitin urðu þau að Kvennalistinn í Reykjavík fékk 7% atkvæða og tvær þingkonur, Kristínu Ástgeirsdóttur og Guðnýju Guðbjörnsdóttur.
Úrslitin 1991 höfðu orðið þau að Kvennalistinn fékk 12% í Reykjavík og þrjár þingkonur.
Eftir þessi úrslit var nokkuð fyrirséð að Kvennalistinn mundi ekki bjóða fram aftur. En Kvennalistinn hafði lifað lengst nýrra stjórnmálaafla eftir að fjórflokkakerfið komst á.
Að kosningum loknum myndaði Davíð Oddsson ríkisstjórn með Framsóknarflokknum. Sjá nánar skjöl hér að neðan.