Afmælishátíðin lukkaðist frábærlega. Þetta var dásemdar dagur, mikið hlegið og fjöldasöngurinn var kraftmikill við undirleik Valgeirs. Gamla góða Kvennaframboðsorkan og gleðin réð ríkjum. Gott ef ekki sveif byltingarandi yfir vötnum.
Dagskráin var fjölbreytt. Sagan var rifjuð upp og horft til framtíðar. Guðrún og Ingibjörg Sólrún veltu upp spurningunum: „Hvers vegna Kvennaframboð 1982?“ og „Hver var árangurinn?“ Ólöf Tara, Sonja Ýr, Isabel Alejandra og Sóley fjölluðu um helstu baráttumálin í dag og það sem brennur á konum. Halla og Breki, afleggjarar Kvennaframboðskvenna fræddu okkur um hvernig væri að alast upp hjá Kvennaframboðskonum. Þorgerður flutti erindið „Femínistarnir og samtíminn, erum við öll á sömu leið?“ Látinna Kvennaframboðskvenna var minnst og Gerður Kristný flutti frumsamið ljóð. Brugðið var á leik með gamanmálum Helgu Thorberg og söng Vigdísar og Ragnhildar.
Hátíðin var haldin í Veröld hinn 13. mars 2022. Sjálft afmælið var hinn 31. janúar en vegna covid varð að fresta því. Salurinn í Veröld var troðfullur og margir þurftu að standa eða sitja í tröppunum. Myndirnar sýna fjöldann og hversu skemmtileg stemmningin var á afmælishátíðinni.