Eftir kosningar 1987 var ríkur vilji hjá Kvennalistakonum að fara í ríkisstjórn. Gengið var frá málefnagrundvelli fyrir stjórnarmyndunarviðræður ef til þeirra kæmi.
Þegar Þorsteinn Pálsson formaður Sjálfstæðisflokks fékk umboð til stjórnarmyndunar boðaði hann Alþýðuflokk og Kvennalista til viðræðna. Í samningaviðræðum voru kvennalistakonur reiðubúnar að slá af ýmsum kröfum. Forgangskrafa þeirra var að setja í lög bann við að greiða laun fyrir dagvinnu undir framfærslukostnaði einstaklinga. Hækkun lágmarkslauna mundi verulega bæta hag kvenna því þær voru stærsti láglaunahópurinn. Kvennalistakonur stóðu fast á sínu og létu að lokum brjóta á þessari kröfu þegar ekki reyndist vilji til að samþykkja hana.
Kjósendur virtust kunna vel að meta staðfestu Kvennalistans. Hann naut vaxandi fylgis í skoðanakönnunum sem náði hámarki í apríl og maí 1988 þegar hann fékk rúmlega 30% fylgi og var þar með stærsta stjórnmálaafl landsins.
Eftir að slitnaði upp úr viðræðum við Kvennalista mynduðu Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur ríkisstjórn undir forystu Þorsteins Pálssonar.