Vefurinn kvennalistinn.is er samfélagslegt verkefni sem hefur það að markmiði að styðja konur um allan heim í stjórnmálum og til áhrifa í samfélögum í því skyni að stuðla að því að sjónarmið og reynsla kvenna verði stefnumótandi afl við þróun þeirra. Kvennaframboðin voru einstök á heimsvísu og nutu gífurlegrar athygli og virðingar. Mikið var fjallað um þau í heimspressunni og kvennalistakonum var boðið að halda fyrirlestra víða um heim til að kynna „hina íslensku aðferð.“ Kvennaframboð og Kvennalisti eru einu kvennahreyfingarnar í heiminum, svo vitað sé, sem hafa fengið kjörna fulltrúa bæði á þing og í sveitastjórnir.
Framboðin komu með nýjar pólitískar áherslur, breyttu orðræðunni, styrktu sjálfsmynd kvenna og fjölguðu konum á Alþingi og í sveitarstjórnum. Þegar Kvennaframboð (1982-1986) bauð fram í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík tvöfaldaðist fjöldi kvenna í borgarstjórn og þegar Kvennalisti (1983-1999) bauð fram til Alþingis 1983, þrefaldaðist fjöldi kvenna á Alþingi.